28.-30.04.07 Drangajökull
Þetta átti að vera Útivistarferð en það vantaði eitthvað upp á fjöldann svo hún féll niður sem slík, við fórum hana þess vegna sem tindátaferð í staðinn. Gistum í Unaðsdal, ókum þaðan suður í Kaldalón að morgni laugardags. Í stað þess að fara inn dalinn norðanverðan (framhjá Keggsi) fórum við upp suðurhlíðina (Votubjörg). Þótt fyrsta brekkan væri brött þá tók hún ekki langan tíma, að henni lokinni komumst við strax á skíðin. Leiðin lá síðan inn fjallið, yfir á Hrolleifsborg, þaðan á Jökulbungu. Af henni skelltum við okkur niður í Unaðsdal, þar virtist raunar engan snjó að finna en Ólafur, nýjasti tindátinn, leiddi okkur niður eftir árgilinu, þar skíðuðum við á snjóbrúm og hengjum rétt ofan við ólagandi vatnsflauminn. Að lokum urðum við þó að horfast í augu við að ekki yrði lengra komist á skíðum - áttum þá eftir 20 metra í bílinn!
Read More